146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Einfalda og mikilvægasta svarið við þessu er auðvitað að við búum minna og skipuleggjum þannig að við búum þéttar og nær hvert öðru. Í dag býr hver Íslendingur í 64 fermetrum á meðan Finninn býr í 34. En við þurfum líka að leita leiða til að auka framlögin, m.a. með léttum og stöðluðum byggingareiningum, og auka hraðann, en ég vara við áformum um að gefa eftir gæðakröfur í byggingum eins og Norðmenn eru að gera núna með svokallaðri TEK17 reglugerð. NAL, norska arkitektafélagið hefur varað við þessu og spurt: Á hverjum bitnar þetta? Og hverjir ná ávinningnum?

Ég tek undir að það þarf að aðlaga vottun að íslenskum aðstæðum og loks er ekki nóg að vera með fræðslu fyrir byggingariðnaðinn, það þarf að kenna fólki að umgangast byggingarnar sínar. Í dag fáum við ekki að setjast undir stýri nema læra á bíl. Þegar kemur að okkar stærstu fjárfestingu skiptir heilmiklu máli hvernig við umgöngumst byggingar, bara upp á hvernig þær fara með okkur og líf okkar.