146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

búsetuskerðingar almannatrygginga.

311. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef áður gert málefni fólks sem fær hlutagreiðslur úr almannatryggingakerfinu til umræðu á Alþingi, enda er þetta sá hópur lífeyrisþega sem býr við hvað mesta fátækt. Til upprifjunar er ágætt að byrja á að segja að kerfið virkar þannig að einstaklingur ávinnur sér fullan rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfinu við 40 ára búsetu hér á landi meðan hann er á aldrinum 18–67 ára. Þeir sem hafa verið búsettir erlendis hluta af starfsævinni fá hins vegar hlutagreiðslur. Kerfið gerir ráð fyrir því að fólk fái þá greiðslur utan frá líka, en það er alls ekki alltaf svo.

Ég lagði fram mjög ítarlega fyrirspurn fyrr á þessu þingi þar sem þessi hópur var kortlagður alveg gríðarlega vel og þar sést t.d. að fjöldi ellilífeyrisþega sem fær skertar greiðslur vegna búsetu erlendis hefur aukist úr 382 árið 2010 í 746 árið 2016. Örorkulífeyrisþegum hefur sömuleiðis fjölgað úr 451 á árinu 2010 í 910 árið 2016. Það er því um mikla fjölgun að ræða í þeim hópi.

Mig langar að fagna því að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er nefnt að auka þurfi stuðning við þennan hóp öryrkja sem ekki hefur unnið sér inn full réttindi hér á landi vegna búsetu erlendis, t.d. innflytjendur. Ég ætla að fagna því að þetta sé í það minnsta komið á blað. En þá er spurningin hvernig eigi að útfæra þetta, það hefur nefnilega gengið illa. Það var t.d. ekki fjallað efnislega um þetta í nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra félags- og jafnréttismála hvort hann muni skipa starfshóp til að fara yfir skilyrði tryggingaverndar og réttindaávinnslu í lífeyristryggingum í ljósi mikillar fjölgunar lífeyrisþega sem verða fyrir skerðingu úr almannatryggingakerfinu vegna fyrri búsetu erlendis.

Jafnframt vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist endurskoða reglugerð þar sem kveðið er á um hlutfallsútreikning sérstakrar framfærsluuppbótar vegna fyrri búsetu erlendis svo að tryggja megi lágmarksframfærslu allra lífeyrisþega. Eins og kerfið er núna þá fá (Forseti hringir.) þeir sem hafa hlutfallslega skertar greiðslur einnig hlutfallslega skertar uppbætur (Forseti hringir.) á bæturnar sínar og hafa þess vegna hlutfallslega ekki (Forseti hringir.) það sem talið er lágmarksframfærsla.