150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Arfleifð þessarar ríkisstjórnar — við vitum að hún er kyrrstöðustjórn og hún kann að skipa nefndir og hópa og hún passar upp á sína. Við heyrðum svör ráðherra hér áðan, fyrirsláttur á fyrirslátt ofan. Það á ekkert að gera þrátt fyrir að menn hafa í áraraðir talað um að það þurfi að fara í ákveðnar aðgerðir eins og að tímabinda nýtingarheimildir á auðlindinni en það er aldrei gert neitt með það. Verkefni okkar á þingi er að eyða tortryggni í garð þessarar mikilvægu atvinnugreinar, eyða vantrausti. Við þurfum að auka gagnsæi og við þurfum að tryggja réttindi þjóðarinnar. Við í Viðreisn höfum lagt fram mjög skýrar tillögur, ekki bara verið að ræða almennt heldur lagt fram skýrar tillögur, sem tryggja dreifða eignaraðild, töluðum fyrir því máli í gær, mjög skýrt, ákveðið kvótaþak og skilyrði um að setja fyrirtæki á markað með það m.a. fyrir augum að opna fyrir greinina, ekki loka eins og þingmenn Vinstri grænna hafa stuðlað að.

Í öðru lagi höfum við skýrt og ítrekað talað fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ekki bara eitthvert humm og ha og þýðingarlítið auðlindaákvæði eins og er birt núna í samráðsgáttinni heldur með skýrum ákvæðum um tímabindingu samninga til að tryggja rétt þjóðarinnar á auðlindinni og tryggja réttlátt og sanngjarnt gjald.

Þá erum við komin í þriðja lagi að tillögum okkar í Viðreisn og fleiri flokka sem við höfum ítrekað lagt fram á þingi, og Vinstri græn hafnað því, að þjóðin fái aðgang að réttlátu, sanngjörnu gjaldi, gagnsæju gjaldi. Við erum að tala hér um markaðsleið, að setja aflaheimildirnar á uppboð í ákveðnum mæli. Hvað tryggjum við með því? Við tryggjum gagnsæi, tryggjum einmitt að menn séu ekki að möndla með það í atvinnuveganefnd, alla daga, stjórnarþingmenn, hver sé kostnaðurinn og hver ekki, allt til þess að reyna að þóknast helstu hagsmunaaðilum heldur fáum við skýrt verð á markaði í gegnum markaðinn sjálfan, verð sem fyrirtækin og markaðurinn sjálfur ákveður. (Forseti hringir.) Við tryggjum þannig gagnsæi varðandi verðið á auðlindinni og við tryggjum líka sjómönnum (Forseti hringir.) gagnsæja verðlagningu á fiskverði en eftir því hafa þeir kallað ítrekað í áraraðir.