150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

málefni aldraðra.

63. mál
[14:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að koma hingað á eftir hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni og ræða um heilbrigðismál. Það eru fáir betur að sér í þeim efnum en hann. Við finnum vel í velferðarnefnd hvað það skiptir miklu máli að hafa reynslumikinn lækni með okkur í hópnum. Þetta rifjar upp þegar verið er að tala um hæfi hvers og eins að við þurfum einmitt á því að halda að þeir sem hafa unnið á svona stöðum, þekkja vel til og hafa starfað nákvæmlega í þessum greinum séu okkur til ráðuneytis og taki þátt í því að búa til betri lög. Ég segi betri lög vegna þess að þetta frumvarp er mikil réttarbót fyrir það fólk sem lendir í þeim erfiðu aðstæðum að annar makinn veikist og þarf að fara á stofnun. Þá er alveg ömurlegt að láta það gerast að hinn makinn sé látinn sitja heima. Að sama skapi er alveg ömurlegt að hjón komist ekki saman á stofnun þar sem annar makinn er mjög hress en hinn veikur. Við vitum og horfum upp á að þrátt fyrir góða heimaþjónustu hrakar hressa makanum mjög hratt eftir að hinn veiki er annaðhvort kominn á stofnun eða andast.

Ég vildi koma hingað bara til að lýsa yfir mikilli ánægju minni með þetta frumvarp sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson og meðflutningsmenn hans leggja fram í annað eða þriðja skipti. Ég held að núna sé mjög mikilvægt að þessu máli verði vísað til nefndarinnar og að við fáum tækifæri til að klára málið og gera að lögum sem fyrst. Hér er á ferðinni mikið réttlætismál fyrir eldri borgara sem ég trúi og reyndar veit að þingheimur muni standa að og þess vegna þurfum við að koma því í gegnum velferðarnefnd sem fyrst.