150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.

511. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. ÍVN (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna möguleika á að koma á vestnorrænum umhverfisverðlaunum hafsins í samstarfi við landsstjórnir Færeyja og Grænlands.“

Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október sl. í Nuuk. Greinargerðin sem fylgir þessari þingsályktunartillögu byggist á greinargerð ályktunarinnar sem var samþykkt þar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum af völdum loftslagsbreytinga og mengunar. Nauðsynlegt er að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni, þróa sjálfbæra orku og finna sjálfbærar lausnir í matvælaframleiðslu. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hafa sett þessi málefni á oddinn.

Á sama tíma er áhugi á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum sífellt að aukast og keppast stórveldi um áhrif á svæðinu og ítök í þeim náttúruauðlindum sem þar er að finna. Samkeppni um yfirráð yfir náttúruauðlindum á landi hefur sett mark sitt á mannkynssöguna en auðlindir hafsins munu leika lykilhlutverk í alþjóðastjórnmálum í framtíðinni.

Hafið hylur um 70% af flatarmáli jarðar og eru auðlindir hafsins mjög vannýttar. Ríki og alþjóðastofnanir hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að hafinu. Sem dæmi má nefna stofnun árlegrar ráðstefnu um hafið (Our Ocean) sem hefur dregið til sín sífellt fleiri þátttakendur síðustu ár. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lagt aukna áherslu á hafið og lífríki þess og sama má segja um umhverfissamtök, frjáls félagasamtök og fyrirtæki.

Mikilvægt er að Vestur-Norðurlönd taki fullan þátt í þessari auknu umræðu um hafið. Löndin hafa talsverða sérstöðu hvað varðar stærð yfirráðasvæðis þeirra á hafi og hversu mjög þau reiða sig á auðlindir hafsins. Nauðsynlegt er að standa vörð um rétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins. Umræðu um friðun stórra svæða á norðurslóðum þarf að mæta með upplýsingagjöf um ábyrga fiskveiðistjórn og atvinnustarfsemi. Ísland, Færeyjar og Grænland ættu því að leggja sig eftir því að móta umræðu um þessi málefni á alþjóðlegum vettvangi.

Stofnun vestnorrænna umhverfisverðlauna hafsins myndi vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi hafsins fyrir komandi kynslóðir og heimsbyggðina alla. Verðlaunin yrðu veitt fyrir sérstakt frumkvæði og vinnu að umhverfisvernd í hafi eða sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda. Verðlaunin yrðu veitt frumkvöðlum, samtökum, fyrirtækjum, sveitarfélögum, ríkisstjórnum, stofnunum eða einstaklingum, hvort sem er á Vestur-Norðurlöndum eða utan þeirra. Verðlaunin myndu vekja athygli alþjóðlegra aðila á mikilvægi hafsins fyrir komandi kynslóðir.“

Eins og ég sagði áðan er þetta ályktun sem samþykkt var á ársfundinum í Nuuk og það er óhætt að segja að hún hafi fengið mikinn stuðning. Töluverðar umræður sköpuðust um þetta málefni, ekki síst að þótt hér sé í alþjóðlegum samanburði um að ræða mjög lítil lönd, Ísland, Færeyjar og Grænland, er yfirráðasvæði þeirra mjög stórt. Ég held að það gæti þakið stóran hluta Evrópu ef fermetrar svæðanna væru taldir. Við getum þóst vera mjög stór þegar kemur að þessu yfirráðasvæði. Þá skiptir hafið þessi lönd mjög miklu máli. Eins og segir hér held ég að sjálfbærni í hafinu skipti gríðarlega miklu máli og það er mikið hagsmunamál fyrir þessi lönd þannig að það er von okkar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins að þessari þingsályktunartillögu verði vel tekið og að ríkisstjórninni verði falið að kanna þennan möguleika.

Samkvæmt hefð held ég að þingsályktunartillögum Vestnorræna ráðsins sé almennt vísað til utanríkismálanefndar og því legg ég til að að lokinni þessari umræðu fari málið til umfjöllunar þar.