151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vænti þess að sagan af leigjandanum góða, sem mætti kalla einhvers konar dæmisögu, eigi að vísa til auðlindaákvæðis. Þá vil ég segja það við hv. þm. Loga Einarsson að eðli þessa ákvæðis á að mínu viti að rúma margar auðlindir. Þegar hv. þingmaður ákveður að leigja herbergi getur verið að hann geri það til skemmri tíma þó að það sé ekki alveg fullkomlega fyrirséð. Síðan getur önnur nýting auðlinda kallað á annars konar sjónarmið. Tökum sem dæmi leiguland þar sem hv. þingmaður byggir sér sumarhús en gjarnan er slíkur tími til 99 ára. Það kann að vera eðlilegur tími þegar um er að ræða nýtingu á landi. Síðan þegar um er að ræða einhverja aðra auðlindanýtingu, segjum orku, þá hefur til að mynda verið talað um 35 ár. Þannig að þegar rætt er um ólíkar tímalengdir held ég að við verðum að horfa á ólíkar tegundir auðlindanna.