151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og mér þykir leitt ef ég hef komið honum í uppnám. En ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi einmitt ekki verið tilbúinn til að sætta sig við þá niðurstöðu sem við erum að ræða hér í dag, hæstv. fjármálaráðherra, hluti af þríeykinu í ríkisstjórn og formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég skil ekki af hverju hann er að draga formann Samfylkingarinnar inn í þetta þegar hann stendur ekki á bak við það sem við ræðum hér í dag. Var það þá þannig að formenn stjórnarandstöðuflokkanna áttu að samþykkja allt sem forsætisráðherra lagði á borðið, allar tillögurnar, en þeir sem gerðu þennan stjórnarsáttmála og eru í samstarfi við hæstv. forsætisráðherra þurftu ekki að vera sammála? Ég tók líka eftir því að hæstv. fjármálaráðherra talar hér um að dægurmál stjórnmálanna séu þvæld inn í umræðu um stjórnarskrá og vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að arður þjóðar af auðlindum sínum sé hluti af dægurmálum stjórnmála sem verið sé að þvæla inn í umræðu um stjórnarskrá.