152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál varðar undirbúning okkar þingmanna fyrir þingstörfin hérna í þingsal. Þetta mál var sett á dagskrá í gær og þá voru ansi margir á mælendaskrá og búnir að undirbúa sig fyrir að taka umræðuna í dag. Ég fagna því að sjálfsögðu ef það sem liggur hér á bak við er að ráðherra er að taka málið til baka og vinna það betur. En við fáum ekki þau svör skýr hérna. Það er mjög óheppilegt að málið hverfi bara af dagskrá þingsins með einhverjum hálftíma, klukkutíma fyrirvara. Þetta er mál sem maður bjóst við að vera að ræða hérna í dag. Það er klassískt svona sem þingið starfar, alltaf í þessu óundirbúna ferli. Það er alltaf verið að skella á okkur einhvers konar breytingum fram og til baka sem gerir það að verkum að allt okkar starf er bara viðbrögð en ekki undirbúningur. (Forseti hringir.) Það er ekki faglegt.