152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna því ef hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið þetta lagafrumvarp og ætlar að endurskoða það vegna þess að yfirheitið var réttindi sjúklinga og það er svo furðulegt að heitið hafi verið réttindi sjúklinga enda fjallar málið eiginlega meira um réttindi starfsfólks. Það sem ég vona að verði til bóta er að málið verði tekið til baka og endurskoðað með augum notenda og þeirra sem munu þurfa að sæta þvingunum. Það er örugglega ekki til meira inngrip í líf fólks en að þvinga það til daglegra athafna, til lyfjatöku, og læsa það inni í herbergi. Það að ekki hafi verið haft samráð við notendur er náttúrlega til skammar. En vonandi er þetta ljósið í myrkrinu, að það eigi að taka þetta til endurskoðunar.