152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:53]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Við höfum einsett okkur að verða á næstu 18 árum fyrsta þjóðin í heiminum sem losar sig að fullu við jarðefnaeldsneyti. Djarft og fallegt markmið og markmið sem er hægt að ná en til þess þarf skýra hugmyndafræði og trausta verkstjórn. Markmiðinu er hægt að ná með því að skýra ábyrgð aðila, með því að útfæra leikreglur markaðarins og tryggja að kerfið virki óháð árferði og sveiflum. Ríkisstjórnin hefur skýr markmið en hana vantar hins vegar skýrari hugmyndafræði og verkstjórn. Það vantar samhengi milli orða og athafna og það vantar að heildarsamhengið sé rætt til að hægt sé að mynda stefnu um heildarhagsmunina. Allt síðasta kjörtímabil sátu orkumálaráðherra og umhverfisráðherra með hendur í skauti, dýrmætur tími glataðist. Ástæðan var, að ég held, ekki flóknari en svo að þar að baki var pólitík, samkomulag ríkisstjórnarflokkanna um að gera sem minnst því að þessi ríkisstjórn er ekki stofnuð utan um skýra hugmyndafræði og til þess að sátt ríki á stjórnarheimilinu þá verður niðurstaðan gjarnan, og það sjáum við í öðrum málaflokkum líka, að gera sem minnst. Lægsti samnefnarinn.

Fyrirheit um orkuskipti verða bara orðin tóm ef það fylgir ekki hvernig á að tryggja framboð og afhendingu raforku. Á þessu ári blasir við okkur öllum, held ég, að það þarf að styrkja flutningskerfið. Hér þarf að horfa aftur á stóru myndina. Leiðin til að ná fram metnaðarfullum markmiðum er skýr hugmyndafræði og skýr verkstjórn. Markmiðin liggja fyrir, eins og ég sagði, og þau eru góð. Við styðjum þau. Það eru mikil tækifæri fyrir Ísland í þessum málaflokki og við munum standa vaktina hér í þessum sal, hvetja stjórnina áfram til góðra verka og veita henni aðhald um að halda sig við efnið þegar á þarf að halda.