152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:58]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu því að hún skiptir máli í ljósi stóru myndarinnar sem við erum öll að fást við, þ.e. hvernig við eigum að takast á við loftslagsvána. Það er tvennt sem ég hnaut um í máli málshefjanda sem mig langar aðeins að orðlengja en vil þó byrja á því að segja að eðli málsins samkvæmt, ef við ætlum að mæta orkuskiptunum, þá þurfum við einhvers staðar að finna þessa orku. Ein hugmyndin í því er sannarlega sú að reyna að brjóta nýtt land til að gera það og það er kannski hin sjálfsagða leið sem mjög margir telja að verði að fara. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að leita allra þeirra leiða sem við getum til þess að nýta betur þá orku sem þegar er framleidd. Þar fagna ég því að hugsunin er að víkka með tilliti til þess að reyna að hámarka aflaukninguna í virkjunum þar sem við höfum þegar brotið land, til þess að nýta betur þá innviði sem við höfum reist en ná líka meiri raforku út úr því sem og að reyna að leita annarra leiða til að leysa af hólmi og mæta þeirri orkuþörf sem liggur fyrir, svo sem til húshitunar.

En það er annað atriði sem er mér afar hugleikið og það er mikilvægi samfélagslegrar sáttar. Ráðherra kemur réttilega inn á það að pólitísk sýn birtist í stjórnarsáttmála hverju sinni. Þar er einmitt mikið talað um mikilvægi samfélagslegrar sáttar. Við vitum það að í sögulegu samhengi geta stórvirkjunarframkvæmdir sérstaklega valdið mikilli úlfúð í samfélögum. Þó er það ekki einhlítt. Ég hef gert það að umtalsefni áður hversu mikilvægt það er að ná þannig utan um umræðuna að sem mest og best samfélagsleg sátt ríki um það þegar við ráðumst í orkuöflun. Það er eitt atriði sem er mjög mikilvægt að horfa til sem og þess sem málshefjandi bendir á, samlegð aðgerða þegar við ráðumst í framkvæmdir með tilliti til annarra alþjóðlegra skuldbindinga.