154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[15:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði mjög gjarnan viljað heyra yfirferð hv. þm. Bergþórs Ólasonar yfir þessi erindi, þessar umsagnir sem hann nefndi og reyndar margt fleira, því að í þessu er eitt og annað sem við eðlilegar aðstæður þyrfti að taka fyrir og taka mjög alvarlega í umræðum á Alþingi. En tíminn er víst naumur. Það kemur í okkar hlut að reyna að liðka fyrir þingstörfum í framhaldi af því að mér skilst að það sé sátt um ákveðið atriði sem horfir svona heldur til bóta, þó að það leysi þetta mál á engan hátt. Hv. þm. Bergþór Ólason mun eflaust gera grein fyrir því í næstu ræðu sinni.

Það vildi svo til, frú forseti, að þegar ég settist þá rak ég augun í skjal, eitt af mörgum sem ég átti eftir að fara yfir. Það er frétt frá Samtökum iðnaðarins þar sem fjallað er um grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls. Þar segir hann, eins og ég var að benda á áðan, að kostnaður við losun hafi aukist alveg gríðarlega, eða sextánfaldast á sex árum, og að Ísland sé í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart þessum stöðugu hækkunum. Jafnframt sé ljóst að kostnaðurinn muni margfaldast á næstu árum. Hann segir að afleiðingin af þessu verði m.a. sú að verðmætasköpun dragist saman á Íslandi og að velferð minnki hér og í Evrópu, enda flytjist framleiðslan annað þar sem kolefnisspor framleiðslunnar verður meira, nákvæmlega eins og ég og við höfum verið að benda á hvað þessi mál varðar. Þetta er allt svo vanhugsað og vitlaust og bitnar auðvitað allt á almenningi á endanum.

Það er rétt að vara við því strax, frú forseti, að þetta er því miður bara byrjunin. Við höfum rétt náð að klóra í yfirborðið hvað varðar annars vegar flugið og hins vegar flutningana, skipasiglingarnar, en svo er Evrópusambandið þegar búið að tilkynna um það að fleira sé í vændum í þessum alræmda græna pakka sem ríkisstjórnin lét pakka sér inn í. Næst eru það flutningar á landi, svo húsbyggingar og fjölskyldubíllinn. Evrópusambandið er rétt að byrja sína skattpíningu og íslenska ríkisstjórnin virðist því miður ætla að halda áfram í blindni og stundum (Forseti hringir.) með fögnuði að þjónusta Evrópusambandið í sinni framgöngu. En við í Miðflokknum munum gera hvað við getum til að berjast gegn þessari þróun og verja hagsmuni íslensks almennings.