154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[17:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Jafnvel þó að Samfylkingin styðji ekki frumvarpið í heild þá styðjum við einstakar greinar frumvarpsins eins og fram kom við 2. umræðu. Þar er m.a. stuðningur við Grindvíkinga og þar er fjallað t.d. um að Grindvíkingar þurfi ekki að borga skatt af þeirri niðurfellingu sem bankarnir hafa sagst ætla að gera á vöxtum og verðbótum húsnæðislána. En ég vil minna á það hér, forseti, að það eru um 100 heimili sem eru með lán sín hjá lífeyrissjóðunum og lífeyrissjóðirnir hafa ekki farið sömu leið og bankarnir, að fella niður vexti og verðbætur. Við vitum ekki alveg hvernig þetta mun enda en það er mikilvægt að við tökum þetta mál aftur upp eftir áramót þegar við höfum betur séð hvað lífeyrissjóðirnir ætla að gera eða telja sig geta gert. Við getum ekki skilið þessi 100 heimili eftir hvað þetta varðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)