131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.

168. mál
[10:39]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég ætla að það eigi ekki bara við um mig en ég hef nokkrum sinnum heyrt í fólki sem kvartar yfir því eða bendir á að það eigi ekki aðgang að heimilislækni eða ekki aðgang að heilsugæslustöð. Ef ég gef mér að eins hátti um aðra þingmenn þá getur maður gefið sér fyrir fram að þetta sé tiltekinn hópur, en mörg undanfarin ár hefur verið kastað fram ýmsum tölum um fjölda þeirra íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem ekki njóta heimilislæknis eða þjónustu heilsugæslustöðvar. Stundum hefur verið fullyrt að sá hópur telji ekki þúsund, heldur tugi þúsunda íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst skipta máli, herra forseti, að það liggi fyrir haldbærar upplýsingar um þetta og um leið og liggja fyrir haldbærar upplýsingar um það hversu margir þessir íbúar eru, þá liggur það líka fyrir hvað við þurfum að byggja upp og efla rekstur heilsugæslunnar til að geta tryggt öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, eins og annars staðar á landinu, greiðan aðgang að grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að það er almenn samstaða um þá forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni að tryggja að heilsugæslan geti sinnt því hlutverki að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Það er líka almennt viðurkennd og eiginlega óumdeild afgerandi hagkvæmni þess að heilsugæslan þjóni því hlutverki, enda er almennt talið að 80–85% af þjónustuþörf landsmanna megi sinna innan heilsugæslunnar.

Við megum heldur ekki gleyma þýðingu heilsugæslunnar fyrir sjúklinga, fyrir einstaklinga og fjölskyldur í landinu, vegna þess að störf og starfsumhverfi heimilislækna skapar þeim mjög náið samband við sjúklinga og fjölskyldur þeirra og heilbrigðiskerfið getur í rauninni ekki verið án þeirrar samhæfingar og yfirsýnar sem heilsugæslunni og heimilislæknum er ætlað að hafa. Ég held líka að með auknu þverfaglegu samstarfi innan heilsugæslunnar eða með þjónustusamningum, að ógleymdri rafrænni sjúkraskrá, getum við enn bætt þessa þjónustu. Undanfarið ár hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og efla þá þjónustu, m.a. til að mæta fólksfjölgun og aukinni eftirspurn. Í fjárlögum þessa árs sér þess merki eins og undanfarin ár.

Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu langt við eigum í land til að geta metið hver raunveruleg þörf er en upplýsingar um fjölda íbúa sem hafa hvorki aðgang að heilsugæslustöðvum né heimilislækni hafa ekki legið á lausu. Það er að því sem fyrirspurn mín til heilbrigðisráðherra lýtur. Ég hef spurt hæstv. ráðherra að því hve margir íbúar það séu sem ekki hafi aðgang, hvað heilsugæslustöðvarnar séu margar, hve mörg stöðugildi séu við hverja þeirra og hvað gert sé ráð fyrir að þessar tvær nýju stöðvar geti þjónað mörgum íbúum. Og loks hve mikið komum á heilsugæslustöðvar hafi fjölgað og hvað sé talið skýra þá fjölgun.