133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið og samkeppnislög.

[10:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég hef, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 1. þm. Reykv. n., í sjálfu sér engar athugasemdir við þá glæsilegu fundarstjórn sem hér er viðhöfð og styð þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í frammi í einu og öllu.

Ég lýsti því yfir í umræðunni í gær að vel mætti vera að ég kæmi hér og héldi aðra ræðu, m.a. um íslenskar samkeppnisreglur og hvernig þær samræmast því frumvarpi sem hér er til umræðu og sömuleiðis gera að umfjöllunarefni samkeppnisreglur Evrópuréttarins. Það má vel vera að ég muni gera það. Hins vegar er alveg ljóst að þrátt fyrir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé 1. þingmaður kjördæmis míns ræður hann því ekki um hvað ég fjalla hér í ræðustól eða hvenær ég geri það.

Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um það að ég ætla aðeins að bíða um sinn með það að setja nafn mitt á mælendaskrá vegna þess að ég bíð í ofvæni eftir því að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, komi hingað og ræði þessi mál. Það hefur lítið farið fyrir honum í umræðunni og hann hefur sömuleiðis lítið sést í þingsalnum og lítið blandað sér í þessi mál, bæði á þessu þingi og sömuleiðis á hinum fyrri þegar við höfum rætt um málefni Ríkisútvarpsins. Það vill nefnilega þannig til að hv. þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar, hvorki meira né minna, hefur lýst því yfir opinberlega að hann sé hlynntur því að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag.

Maður skyldi nú ætla að maður sem hefur svona mikið undir sér og er hvorki meira né minna en varaformaður næststærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi, sem er sá stærsti í stjórnarandstöðunni, sé ekki einn um þá skoðun í þeim stjórnmálaflokki. Ég bíð því spenntur eftir því að varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, komi í ræðustól og ræði viðhorf sín til þess hvort breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag eða ekki. Þegar hann hefur gert það skal ég verða við ósk (Gripið fram í: Ertu að biðja um …) hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að ræða þessi mál. Ég vildi tilkynna þér þetta, hæstv. forseti, að ég bíð mjög spenntur eftir því að varaformaður Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) sem ætti að vera yfirmaður þingflokksformanns þess ágæta flokks stigi hér upp í ræðustól og viðri viðhorf sín til þessa máls. (Gripið fram í.)