133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:23]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af frammíkalli tek ég mjög undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stöðu þingflokksformanna. Þeir eiga auðvitað að líta til allra sinna þingmanna, vera undirmenn þeirra og líta til þeirra hagsmuna allra (ÖS: … þína.)

Ég vil gjarnan nýta þennan tíma til að ræða fundarstjórn forseta og minna á það sem öllum þingmönnum má vera ljóst sem hér sátu fyrir áramót. Ég tek vara við því að hér eru varaþingmenn sem ekki voru hér fyrir áramót en öllum sem hér voru mátti vera ljóst um hvað það samkomulag fjallaði sem við gerðum þá. Það var að ljúka þeim málum sem við vorum með þá og gerðum samkomulag um að ljúka fyrir áramót en síðan kæmum við saman 15. janúar til að ræða eitt þingmál, og önnur þingmál yrðu ekki á dagskrá fyrr en því væri lokið. Mér finnst, hæstv. forseti, menn tala ansi frjálslega um það samkomulag og tala eins og að þeir hafi ekki hugmynd um um hvað það samkomulag fjallaði. Það var bara nákvæmlega svona. Við ætluðum að fjalla um Ríkisútvarpið þangað til því yrði lokið. Menn eiga ekki að gera það lítið úr þingstörfum okkar með því að tala um þau á þeim nótum sem hefur verið gert í morgun. Það er bara ekki við hæfi. Ég hvet þess vegna eindregið til að við höldum áfram að fjalla um Ríkisútvarpið eins og dagskrá kveður á um.

Ég tek einnig fram að forseti hefur haft fullt samráð við þingflokksformenn og almennt hef ég ekki heyrt nokkurn þingflokksformann kvarta yfir því að samráð við forseta væri ekki gott.