133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:03]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var að mörgu leyti ákaflega skilmerkileg ræða þó að ég sakni þess auðvitað að hv. þingmaður skuli ekki hafa gefið sér lengri tíma til að ræða ýmis flókin málefni sem hann velti upp í ræðu sinni.

Meginefni ræðunnar fjallaði um það sem hv. þingmaður telur að séu brot á réttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins og felist í samþykkt frumvarpsins. Hv. þingmaður sagði undir blálok ræðu sinnar að eitt meginmarkmiðið með þessu frumvarpi væri að fækka stéttarfélögum. Ég er ekki alveg viss um að ég geti tekið undir að það sé eitt af meginmarkmiðunum en hitt er alveg ljóst að frumvarpið setur réttindastöðu starfsmanna mjög í uppnám. Mér fannst hv. þingmaður að ýmsu leyti ekki alltaf tala algjörlega skýrt í ræðu sinni og þess vegna kem ég upp til að spyrja hann út í eitt tiltekið atriði. Hv. þingmaður sagði að frumvarpið skapaði óvissu um réttindi starfsmanna. Er það svo? Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg ljóst að frumvarpið skerði réttindi starfsmanna hvað sem ýmis unglömb Framsóknarflokksins segja úr þessum stóli. Ég held að um það verði tæpast deilt. En það sem mér finnst merkilegt er að hv. þingmaður skuli taka svona til orða, því að sjálfur las hann upp úr bréfi frá velþekktum vinnuréttarlögfræðingi, Láru V. Júlíusdóttur, sem sagði alveg klárt og kvitt í þeim texta sem hv. þingmaður las upp: „Réttindi starfsmanna verða ekki hin sömu eftir að þetta frumvarp verður að lögum.“

Því langar mig að spyrja hv. þingmann. Velkist hann í vafa um þetta mál? Telur hann í raun að það sé einhver óvissa? Er það ekki alveg rétt að réttindi munu (Forseti hringir.) skerðast eins og vinnuréttarlögfræðingur, sem ég vitnaði til eins og hann, hefur sagt?