135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

Háskólinn á Akureyri.

249. mál
[15:00]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspurnina sem gaf hæstv. menntamálaráðherra færi á að upplýsa um þau góðu verkefni sem hún hefur barist fyrir í þágu Háskólans á Akureyri. Það ber að þakka sem vel er gert.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra var undirritaður samningur við háskólann til þriggja ára 18. desember síðastliðinn sem mun fleygja öllu starfi fram þar, ekki síst í því efni sem hæstv. ráðherra nefndi, að þar er um að ræða árangurstengdan samning sem ég fagna sérstaklega. En í umræðum um málefni Háskólans á Akureyri hefur sjónum oft á tíðum verið beint út fyrir skólann og gerðar kröfur til annarra í stað þess að gera ríkari kröfur til skólans sjálfs um árangur í starfi.

Ég fagna sérstaklega áherslunum í þeirri samningsgerð sem hér liggur fyrir. Að öðru leyti vil ég þakka hæstv. menntamálaráðherra hjartanlega fyrir þann stuðning sem hún hefur veitt í því starfi sem Háskólanum á Akureyri er ætlað að sinna.