137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

fyrirgreiðsla í bönkum – spekileki.

[15:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina tveim spurningum til hæstv. viðskiptaráðherra. Það hefur nokkuð gleymst á þessu sumarþingi, sem er búið að vera mun lengur en menn ætluðu og sér ekki fyrir endann á því enn, að taka á þeim málum sem snúa fyrst og fremst að fólkinu í landinu. Það er það sem oft hefur verið kallað bráðaaðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Hvað er langt í að bankarnir fari að starfa eins og bankar? Miðað við þær fréttir sem maður heyrir frá almenningi, þá kannski sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og þó auðvitað víðar, er nokkuð langt í að fyrirtæki og einstaklingar fái eðlilega fyrirgreiðslu. Þar sem lagt var upp með að fara í þetta verk 1. febrúar er fólk eðli málsins samkvæmt farið að lengja eftir þessu.

Fyrri spurningin snýr að því að það er augljóslega mikið af fjármunum í bönkunum: Hvað er langt í að menn geti fengið eðlilega fyrirgreiðslu?

Hin spurningin, virðulegi forseti, snýr að því sem er kallað, með leyfi forseta, á enskri tungu „brain drain“ og hefur verið skýrt sem „spekileki“ á Íslandi. Þetta er nokkuð sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur tjáð sig um og hann segir svo í viðtali við erlendan fjölmiðil, með leyfi forseta, að „it would be pretty devastating if one result of all of this was that Iceland’s best and brightest would leave or that Icelanders that are now studying abroad would not return“. (Gripið fram í: Þú mátt þetta ekki.) Ég spyr vegna þess að við ákváðum fyrir nokkrum dögum að fyrsta skrefið í ætlun ríkisstjórnarinnar væri að enginn væri með hærri ríkislaun en forsætisráðherra. Þá eru að vísu ekki inni fríðindi forsætisráðherra. Það er alveg ljóst að við erum í samkeppni við fólk, sérstaklega á Norðurlöndunum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, og ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann telji að þetta stefnumið ríkisstjórnarinnar og það markmið sem við erum öll sammála um, að bæði halda okkar vel menntaða fólki (Forseti hringir.) hér á landi og fá það heim, fari saman.