139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er um flókin úrlausnarefni að ræða og auðvitað voru uppi ólík sjónarmið milli ráðuneyta og milli þingmanna og jafnvel nefnda. Það sem fólst í orðum mínum var einfaldlega það að bæði þau ráðuneyti sem að málinu komu og þingmenn ólíkra stjórnmálaflokka áttu það sammerkt að vilja veg þessa iðnaðar sem mestan. Það var ekki pólitískur ágreiningur um að leysa úr málinu eins og best væri kostur fyrir þennan iðnað. Áherslumunurinn fólst í því hvort rétt væri að leita eftir afstöðu ESA áður en ráðist væri í lagasetningu eða hvort setja ætti lög og spyrja ESA svo. Það eru algjörlega málefnaleg sjónarmið að það kunni að vera betra fyrir þennan iðnað að leita fyrst eftir álitinu, það sé vandaðri málsmeðferð, og setja síðan ívilnun í lögin vegna þess að ef ekki sé þannig að farið geti það komið í bakið á mönnum, komið aftan að fyrirtækjum og að forsendur sem þau hafi byggt sinn rekstur á reynst orðin tóm vegna þess að ESA ógilti þau, og þannig skapað iðnaðinum meiri vanda en það leysti.

Þess vegna held ég að lausnin sem fannst í efnahags- og skattanefnd hafi í raun og veru brúað bilið á milli þessara ólíku sjónarmiða í því að lögfesta málið strax eins og iðnaðurinn leggur mikla áherslu á til að það tefji ekki fyrir honum í að afla hér nýrra viðskiptavina á næsta ári en að ívilnanirnar taki gildi 1. maí þannig að í millitíðinni sé unnt að leita álits ESA og grípa þá inn í eftir atvikum (Forseti hringir.) ef einhverjar athugasemdir koma þaðan.