141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að ræða sama atriði í störfum þingsins og ég fleiri hv. þingmenn vikum að í gær, þar á meðal hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson.

Það sem málið snýst um er að við afgreiðslu fjáraukalaga í fjárlaganefnd var óskað eftir tilteknum upplýsingum frá ríkisstjórninni. Samkvæmt þingsköpum er réttur þingmanna í nefndum til að kalla eftir upplýsingum meðan á meðferð málsins stendur afar víðtækur og var styrktur með lagabreytingum síðast 2011. Samstaða var um þær lagabreytingar og samstaða var um að auka eftirlitshlutverk Alþingis og auka möguleika þingmanna til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Í málinu eru aðstæður með þeim hætti að fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra eru augljóslega að víkja sér undan því að svara beiðni þingmannanna, fyrst með því að draga svör og síðan með almennri tilvísun til upplýsingalaga sem hjálpar ekkert í því sambandi sem um er að ræða, sérstaklega ekki þegar það svar, þar sem vísað er til þess að menn geti aflað upplýsinga samkvæmt almennum upplýsingalögum, kemur mörgum vikum eftir að umfjöllun þess máls sem vísað var til er lokið í þinginu. Ég held að það sé full ástæða fyrir forseta og þingið í heild að taka hart á þessu máli. Við erum að láta reyna á ný ákvæði þingskapa sem hafa skýran og ákveðinn tilgang. Ráðherra víkur sér undan því að fylgja þessum skýru lagafyrirmælum og verður að taka á því með þeim hætti að það skapi ekki fordæmi að ráðherrar geti með svona vinnubrögðum (Forseti hringir.) komist hjá því að veita þingmönnum þau svör sem þeir krefjast og eiga rétt á að fá.