141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv forseti. Í ræðum hér hefur verið vikið að áformum um byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss og ekki vonum seinna að umræða um það hefjist af einhverju viti á þingi. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir taldi að það væri engin kúvending í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar vegna þess að ríkisstjórnin hefði skoðað eitthvert minnisblað fyrir tíu dögum eða svo. Það er auðvitað ekki gilt. Um er að ræða gerbreyttar forsendur þessa máls eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vék að áðan. Í fljótu bragði sýnist mér, ég sit ekki í fjárlaganefnd en hef reynt að kynna mér nefndargögn um þetta eftir því sem kostur er í gær og í dag, að harla einkennilega sé gengið frá hugsanlegum fjárveitingum og eftir atvikum lántökum vegna þessarar miklu framkvæmdar, eins og fjárlagafrumvarpið er sett upp, og ég held að það sé full ástæða fyrir þingið að fara gaumgæfilega yfir það. Mér sýnist vinnubrögðin sem viðhöfð voru af meiri hluta fjárlaganefndar í þessu máli hafa verið fyrir neðan allar hellur.

Það er því miður einkennandi fyrir marga aðra þætti í þessu máli, í fjárlagaferlinu. Ég veit ekki hvenær við fáum tækifæri til að ræða fjárlögin hér en þau eru hið eina sanna áramótamál sem ætti auðvitað að vera forgangsmál fram yfir önnur mál á dagskrá þingsins. Frágangur fjárlaga virðist hins vegar einkennast af því að fela stóra kostnaðarliði og hanna útkomuna þannig að vel líti út fyrir ríkisstjórn fram að kosningum. (Forseti hringir.) Svo þegar skuldadagarnir koma að kosningum loknum þá mun myndin sem dregin er hér upp (Forseti hringir.) verða allt önnur og miklu verri en hún lítur út í plöggum meiri hlutans.