141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir nær hvert orð sem hv. þingmaður fór með hér í ræðustól. Það er eitt sem ég er ósammála hv. þingmanni um, þegar hann segir að þetta sé ekki pólitískur óskalisti. Gagnrýni mín á þetta mál allt saman felst fyrst og fremst í því að hér er um að ræða pólitískan óskalista tveggja hæstv. fyrrverandi og núverandi ráðherra, (Gripið fram í: Rétt) Oddnýjar Harðardóttur og Svandísar Svavarsdóttur, hæstv. umhverfisráðherra. Þetta er pólitískur óskalisti þeirra. Það getur aldrei nokkurn tímann orðið sátt um hann. Hann getur aldrei myndað þann grunn sem þarf til að þjóðin sættist á hvernig við eigum að nýta orkunýtingarsvæðin í þessu landi. Þess vegna tel ég að þessi rammaáætlun verði ákaflega skammlíf ef hún verður samþykkt óbreytt. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að fara með þetta inn í það ósáttaferli sem raun er, þar sem pólitískar óskir tveggja hæstv. ráðherra ráða því hvernig á að fara út í orkunýtingu hér á næstu árum og áratugum.