141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir umræðan farin að dýpka. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þessar ljóðlínur úr hinu fagra ljóði Bubba Morthens eiga mjög vel við, sérstaklega hér í kvöld. Þeir sem horfðu á Kastljósið og þeir sem hlustuðu á Spegilinn gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin er komin í algjörar ógöngur með alla þessa hluti.

Í þessu sérstaka máli held ég að vænlegast sé að fara þá leið að láta sérfræðingana um að koma með tillögu að flokkun virkjunarkosta þannig að haldið sé áfram þeirri vinnu sem hefur verið unnin síðasta rúma áratuginn og að Alþingi samþykki þá tillögu óbreytta. Ég held að það skapi sáttina. Það skapar ekki sátt að loka sig inni í forsætisráðuneytinu með kertaljós og tala ekki við nokkurn mann nema aðstoðarmann sinn. Það skapar enga sátt.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við reynum að laða fram þessa sátt alveg eins og við þurfum að gera í stjórnarskrármálinu, alveg eins og við þurfum að gera í öllum þeim stóru málum sem standa nú fyrir dyrum. Það þýðir ekkert að loka sig inni með Hrannari B. Arnarssyni við kertaljós.