141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru orð meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Fulltrúi þess meiri hluta er á fundinum og getur kannski svarað þessu. Ég get það ekki. Mér þætti það dálítið snúið ef bóndi sem ætlar að virkja lítinn bæjarlæk eða pínulítinn foss fyrir ofan bæinn þarf að fá leyfi úr Reykjavík til þess og þá fari í gang heilmikið umhverfismat og allt slíkt sem í rauninni er engin þörf á.

Mér finnst að við ættum líka að snúa spurningunni um Þjórsá til nefndarinnar því að þetta eru tillögur hennar. Svo veit maður ekki hvað gerist ef þetta verður samþykkt. Er þá Alþingi búið að beina þessu til ráðherra og Alþingis alls af því að það er meiri hlutinn sem segir hér:

„Meiri hlutinn beinir því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls að …“

Þetta er mjög skrýtið ákvæði. Þá hefði átt að breyta ályktuninni sjálfri ef þetta hefði átt að vera þingsályktun Alþingis eða setja í greinargerð að þetta væri staðan sem væri samþykkt. Þá eru það lögskýringargögn.

Ég er sammála því að þetta er undarlegt orðalag. Það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra sem situr við umræðuna gæti svarað þessu sem fyrst þannig að það geti stytt umræðuna. Þá þurfum við ekki að spekúlera fram og til baka um hvað þetta þýðir. Eru þetta bæjarlækirnir eða virkjanir yfir 10 megavött? Eða um hvað eru menn að tala? Almenningur í landinu þarf að vita nokkurn veginn hvar hann stendur, en alveg sérstaklega náttúrlega er það spurningin um ASÍ sem ég hef velt fyrir mér. Það hefur heilmikil efnahagsleg áhrif og væntanlega heilmikil áhrif á lífskjör alls launafólks í landinu.