141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að þessi spurning hefur komið nokkrum sinnum fram í umræðunni tel ég rétt að koma að henni varðandi það sem hv. þingmaður kallar frumkvæðisskyldu stjórnvalds. Varðandi Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun var það útgangspunktur okkar þegar við höfðum farið yfir athugasemdirnar, og þá er ég að vísa til ráðherranna, sem sagt þegar við vorum í lokafasa ferlisins samkvæmt lögunum, að við, ráðherrarnir, tækjum ekki neinar ákvarðanir sem snerust um endanlega ráðstöfun virkjunarkosts í nýtingu eða vernd þannig að þær breytingar sem gerðar yrðu í þá veru væru alltaf gerðar á faglegum grunni til þess að tryggja faglegar forsendur rammaáætlunar í hverju einasta skrefi. Það þykir okkur skipta afar miklu máli andstætt því sem hér kemur stundum fram.

Það var einmitt þess vegna sem þeir virkjunarmöguleikar, sem voru virkjunarhugmyndirnar þrjár í Þjórsá og svo Hágöngur og Skrokkalda, voru færðir úr nýtingu í bið til þess að viðhalda þeirri meginreglu að endanleg flokkun væri alltaf á forsendum faglegrar greiningar en ekki af hendi ráðherranna á lokastigi. Ég vænti þess í ljósi þess hvað þingmönnum er annt um faglegan grunn að skilningur ríki á þeirri meginafstöðu.