141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við erum sammála um að þetta styður þá gagnrýni okkar varðandi þau pólitísku fingraför sem við sökum ráðherrana um að hafa sett á málið.

Þingmönnum Samfylkingarinnar sérstaklega, og reyndar kannski reyndar Vinstri grænna líka, hefur verið tíðrætt um umhverfisþáttinn og að láta náttúruna njóta vafans. Þessar breytingar eru undir þann þátt settar, varúðarreglu umhverfisþáttar. Það er talað um nýja stefnu í atvinnulífi, að náttúran skapi mikil verðmæti, að gera Ísland að fyrirmyndarlandi í náttúruvernd.

Er ekki einmitt svona orkuöflun á Íslandi? Staða okkar í þessum málum gagnvart endurnýjanlegum orkukostum — erum við ekki einmitt að tala um einn stærsta þáttinn í ímynd Íslands fyrir hreinleika í orkuframleiðslu? Getur þingmaðurinn verið sammála mér um að við erum að nálgast þessi varúðarsjónarmið? Við erum að horfa til náttúrunnar, við erum að taka fullt tillit til náttúrunnar. Við erum að skapa Íslandi sterka ímynd með nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Fer þetta ekki bara saman við þá orkustefnu sem hefur verið rekin hér undanfarin ár? Erum við ekki einmitt að láta náttúruna njóta vafans á vissan hátt þar sem við höfum aukið varfærni okkar mjög og (Forseti hringir.) hefur okkur ekki tekist ágætlega að gera Ísland (Forseti hringir.) að fyrirmyndarlandi hvað varðar náttúruvernd?

(Forseti (ÞBack): Nú varð forseta á og gaf hv. þingmanni tvær mínútur en ekkert virtist veita af.)