141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég endaði umsögn mína úr atvinnuveganefnd til umhverfis- og samgöngunefndar með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Ef tillagan verður samþykkt óbreytt, eins og forsvarsmenn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar virðast áætla, er ljóst að þar fer pólitísk rammaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar en ekki fagleg niðurstaða faghópa sem unnu að rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta og vonir voru bundnar við að víðtæk sátt næðist um.

Önnur afleiðing verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeira. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna.“

Það sem hefur undrað mig í þessari umræðu er að þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem ég veit að eru ósammála þessari stefnu hafi hingað til sætt sig við að sitja undir henni og er nærtækast að nefna herra forseta sem hér er. Hann hefur reyndar sett fyrirvara við álitið en það hafa hins vegar ekki margir aðrir gert. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði: Ekki vildi ég vera kosningastjóri Samfylkingarinnar á Suðurlandi fyrir hönd þingmannanna Björgvins G. Sigurðssonar og Oddnýjar G. Harðardóttur farandi með svona plagg inn á Suðurland og Suðurnes þar sem gríðarlegt atvinnuleysi er í þessum málum.

Mér finnst því ekki undarlegt að hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er að gera sig breiðan — hann kom reyndar hér og hélt mjög sérkennilega ræðu um þetta mál fyrir nokkrum kvöldum. Ég náði ekki hvað hann var að fara en hann talaði í þokkalega langan tíma. Hann virtist ekki vera tilbúinn að ganga eins langt og hann gerir í dag, og ástæðan fyrir því er kannski sú að nú sjá menn að verkalýðshreyfingin segir: Hingað og ekki lengra. Hún eru auðvitað orðin hundleið á öllum samningsbrotum ríkisstjórnarinnar, en þegar hún sér að hér er efnahagsstefna sem ætlar að halda áfram stöðnun með vaxandi atvinnuleysi, lágu gengi íslensku krónunnar (Forseti hringir.) og engum hagvexti þá segja menn: Hingað og ekki lengra. Þess vegna undrar mig ekki að ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar fari að láta í sér heyra hvað það varðar.