141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ríkisstjórnina gera mikið í þeim málum sem hv. þingmaður nefnir. Ég sé ekki að þessi ríkisstjórn sé að vinna að því að ýta undir hagvöxt í landinu, þvert á móti. Auðvitað vonum við hið besta varðandi þróun efnahagsmála á næstu missirum en eins og ég hef áður sagt í þessum sal óttast ég að þær spár sem gengið hefur verið út frá, t.d. við gerð fjárlaga, séu allt of bjartsýnar varðandi þróun efnahagsmála. Ég held að það sé ofmat á því hverju aukin einkaneysla muni skila inn í hagvöxtinn og ég held að á sama tíma og ríkisstjórnin gerir atlögu að hverri atvinnugreininni á fætur annarri sé ekki mikillar aukningar að vænta á fjárfestingu í atvinnulífinu, sem er hin forsenda hagvaxtar sem gert hefur verið ráð fyrir í spám Hagstofu, Seðlabanka og annarra slíkra aðila.

Það sem er að gerast í sambandi við rammaáætlun bendir ekki með neinum hætti til þess að ríkisstjórnin sé tilbúin til að taka ákvarðanir sem eru til þess fallnar að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu. Hvað þessi mál varðar er augljóst í þessum efnum að þeir virkjunarkostir sem eru næstir okkur í tíma og auðveldast væri að fara í eru settir úr nýtingu í bið, en þeim kostum haldið í nýtingarflokki sem eiga flestir því miður miklu lengra í land. Samþykkt rammaáætlunar eins og hún lítur út núna mun því ekki með nokkrum hætti verða til þess að auka mönnum bjartsýni í atvinnulífinu heldur þvert á móti.