141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt orðað hjá hv. þingmanni að þetta sé til algjörrar skammar. Það er mikið áhyggjuefni ef við horfum til þess hvernig mál hafa þróast. Það verður ekkert auðvelt að vinda ofan af þessu. Það verður ekkert auðvelt að ná að sameina þjóðina á nýjan leik eftir þann ágreining sem verið hefur um öll mál. Til þess þarf verulegar breytingar og breytt hugarfar og til þess þarf forustumenn í stjórnmálum, sem eru þá forustumenn ríkisstjórnar hverju sinni, sem eru tilbúnir að ná breiðari sátt og málamiðlun í stærri málum.

Við horfum upp á hvert stórmálið á fætur öðru sem ríkisstjórnin keyrir hér í gegn án þess að um það ríki samstaða innan ríkisstjórnarflokkanna eða milli ríkisstjórnarflokkanna. Þá auðvitað gerist það sem við urðum vitni að hér í dag, þ.e. stríði aðila vinnumarkaðar og Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Þetta mun aldrei leiða neitt gott af sér. Við missum sjónar á mikilvægasta atriðinu sem er að horfa til framtíðar og nýta þau sóknarfæri sem okkur gefast.