141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum talað nokkuð um það í kvöld og farið yfir það sem við teljum vera vankanta á málinu. Eitt er það klárlega að allur sá mikli tími sem farið hefur í gerð rammaáætlunar hefur reynst — ég ætla ekki að segja að hann hafi farið til einskis, alls ekki, en ljóst er að ákveðið var að taka hæfilega mikið mark á því sem þaðan kom.

Það er nú þannig, virðulegi forseti, úr því að hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu gæði verkefnisins, að mikilvægt er fyrir okkur að hafa það í huga, þó svo að ég efist ekki um að allir hafi reynt að gera sitt besta í þeirri vinnu, að ýmislegt varðandi vinnuna sjálfa hefur líka verið gagnrýnt, og mun ég síðar fara aðeins nánar yfir það. Ég bendi til dæmis á að í umsögn Suðurorku er vitnað í fundargerðir faghópa og farið er yfir það að forsendur og mælikvarðar voru jafnvel ekki til staðar eða voru afar veikir þannig að hægt væri að fá faglega niðurstöðu.

Svo er það einnig gagnrýnt að þegar menn fóru í að raða þessum flokkum í röð var það gert með einhvers konar kosningu. Við hljótum líka að velta fyrir okkur hvort það geti verið faglegt þegar tilfinningarnar og hugurinn er farinn að ráða för kannski. Svo vitum við líka að menn þurftu að tala sín á milli, tala um fyrir hver öðrum, jafnvel hvar ætti að setja ákveðna kosti, í hvaða röð og hvernig og allt það.

Þessi vinna er að sjálfsögðu alls ekki hafin yfir gagnrýni og því miður held ég að niðurstaðan sé sú (Forseti hringir.) að það þurfi að gera þetta öðruvísi næst þegar farið verður í þetta verkefni.