143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

frískuldamark vegna skatts á fjármálafyrirtæki.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi eru forsendur hv. þingmanns rangar einu sinni sem oftar. Bankinn sem er til umræðu kom ekki sérstaklega vel eða betur út úr setningu frítekjumarksins en hinir minni bankarnir heldur þvert á móti. Hann kom verst út úr þessu frítekjumarki eða setningu þess eins og það var miðað við hina minni bankana.

Frímarkið sem var sett til að verja minni bankana leiddi til þess að aðeins einn minni bankanna greiðir þennan skatt og það er sá banki sem hv. þingmaður er að dylgja um hér. Hinir minni bankarnir, sem þetta fyrirkomulag átti að verja, greiða engan skatt.

Í öðru lagi vissi ég ekki af frítekjumarkinu eða hvernig því yrði breytt fyrr en það var kynnt fyrir þingflokkunum. Ólíkt hv. þingmanni sem var virkur í því að búa frítekjumarkið til og taldi það rétt og nauðsynlegt eða eins og segir í minnihlutaáliti hv. þingmanns, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn leggur til smávægilega hækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki í ljósi hugmynda um svokallað frímark heildarskulda undir 50 milljörðum kr. Að mati 1. minni hluta eru tillögur um frímarkið af hinu góða og að það sé nauðsynlegt til að mæta þörfum minni fjármálafyrirtækja.

Fyrsti minni hluti telur breytingartillögur meiri hlutans jákvæðar og til þess fallnar að bregðast við athugasemdum sem komið hafa fram um álagningu skattsins.“

Sem sagt, ekki aðeins er hv. þingmaður það ómerkilegur að fara að blanda ættingjum og samstarfsmönnum stjórnmálamanna inn í pólitískt skítkast til að reyna að koma á þá höggi heldur gerir hann það með því að dylgja um ákvörðun sem hann kom sjálfur beint að ólíkt mér. Í þessu máli nær hv. þingmaður nýjum botni í þeirri ógeðfelldu pólitík sem hann er farinn að stunda, líklega til að verjast í vandræðum á sínum heimavígstöðvum í sínum flokki.