146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek svo sannarlega undir með kollegum mínum í stjórnarandstöðunni. Ég skil eiginlega ekki það fyrirkomulag að ætla ekki að hafa sérstakar umræður þó að töluvert sé að koma inn af málum frá ríkisstjórninni. Í þessari viku hefur verið lagt upp með ákveðið fyrirkomulag í fjármálaáætlunarumræðunni, sem getur verið ágætt, en til þess þarf líka annað að komast á dagskrá, ekki bara það sem hentar ríkisstjórninni.

Ég hvet fjölmiðla til að rýna sérstaklega fjármálaáætlunina og þann fagurgala sem þar er færður fram, því að hann tekur akkúrat ekki á því máli sem hér hefur verið hvatt til að fái að komast á dagskrá, þ.e. að við ræðum fátækt. Fátækt í samfélaginu er mjög alvarleg. Og því hefur verið lýst hvers vegna fjöldi sérstakra umræðna hefur verið hér á undanförnum vikum. Ég verð að taka undir með forseta lýðveldisins sem sagði: Vandinn, þ.e. fátæktin, er til staðar, reynum að takast á við hann þó ekki væri annað. Það getum við gert með því að ræða við ráðherra sem hefur m.a. um það að segja hvernig því verður fyrirkomið í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.