146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

mismunandi áherslur í ríkisstjórn.

[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það er alltaf gaman að heyra málflutning hv. þm. Loga Einarssonar, enda er hann með skáldlegar líkingar og maður veltir fyrir sér kóngulónni, sem gengur í ýmsar áttir, og liprum fótaburði hennar. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru þrír flokkar í ríkisstjórn og þeir eru ósammála í mörgum málum. Það er eðlilegt. Þeir eru hins vegar sammála um ákveðin mál og um það snýst ríkisstjórnarsamstarfið. Það er ekkert óeðlilegt við að flokkar sem héldu einhverju fram fyrir kosningar og höfðu þá mismunandi stefnu hafi ekki breyst eftir kosningar. Mér finnst ekkert að því. Hins vegar semja menn um niðurstöðu ákveðinna mála. Það er það sem ríkisstjórnin snýst um.

Ég veit að það eru ekki allir minnihlutaflokkarnir (Gripið fram í.) sammála um öll mál. Það er bara eðlilegt. Það eru fjórir flokkar í minni hluta. Og meira að segja innan flokka eru ekki allir sammála, jafnvel í tiltölulega litlum þingflokkum koma fram mismunandi áherslur á hinum ýmsu málum. Mér finnst ekkert að því. Þannig eru skoðanaskipti. Þannig er lýðræðið.