149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, varaformaður fjárlaganefndar, rakti mjög vel hvað búið er að gera og hversu meðvituð fjárlaganefnd er öll um stöðu allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Ég ætla ekki að rengja eitt eða neitt sem hefur komið fram í máli þeirra sem tala fyrir hönd minni hluta þegar kemur að tölfræði.

Fjárlaganefnd hefur fengið forstöðumenn heilbrigðisstofnana á sinn fund bæði í tengslum við fjárlagavinnu 2018 og svo nú 2019. Staðan er víða erfið og snúin. Ef við tökum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk fjárlaganefnd forystumenn sveitarfélaganna á sinn fund sem færðu ágætisrök fyrir þeirri þróun sem hefur átt sér stað þar. Það er alveg rétt sem hefur komið fram, bæði í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar og máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, að þar hefur bæði samsetning íbúa og örari fjölgun en víðast annars staðar sett aukið álag á heilbrigðisstofnanir. Það er alveg rétt. Fyrir fjáraukalagafrumvarpið kom fjárbeiðni frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

En þetta er vandi sem hefur verið að þróast frá 2014 og meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að það væri mjög hæpið, væru ekki bara hæpin skilaboð, það væri bara hæpið, ef við rýnum 27. gr. laga um opinber fjármál, að bregðast við vanda einnar tiltekinnar stofnunar. Við höfum lagt á það áherslu í fjárlaganefnd að fara í heildstæðar aðgerðir fyrir þessar stofnanir og það verði gert með því verkfæri sem heitir endurskoðun ríkisfjármálaáætlunar, og er núna eftir nokkra mánuði á vorþingi, þar sem tekið verði á þessum vanda allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni með heildstæðum hætti. Þá vil ég ítreka að tekið verði sérstaklega tillit til þess út frá íbúaþróun og ferðamannafjölda þeirra stofnana sem hér hafa helst verið ræddar, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það er það verkfæri sem lög um opinber fjármál gefa okkur í þessu.

Við getum ekki verið svo heilög, þegar 2. umr. um fjáraukalagafrumvarpið var um að einhver tiltekin útgjaldatilefni stæðust tæpast lögin um að vera ófyrirséð, tímabundin eða óhjákvæmileg — að ætla svo að taka hér út eitt tiltekið málefni og bregðast við því. Ég lagði á það áherslu og legg á það áherslu að við nýtum þau verkfæri sem lögin geyma áður en við grípum til slíkra úrræða sem fjárauki er. Það var sérstakt markmið að draga úr umfangi fjárauka og það gerum við ekki með því að bregðast við vanda með eitt tiltekið málefni, þó að ég leggi á það áherslu í lokin, virðulegi forseti, að það er sameiginlegur skilningur allrar hv. fjárlaganefndar á þessu verkefni sem við eigum að kalla fast eftir í samstarfi við allar stofnanir og hæstv. heilbrigðisráðherra, að leysa þennan vanda.