150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:15]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari sérstöku umræðu en við þingmenn Samfylkingarinnar höfum verið duglegir að halda á lofti mikilvægi þess að auka nýsköpun og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi og ekki síst að efla ylrækt og framleiðslu ávaxta og grænmetis á Íslandi. Þar tel ég sérstaklega mikil tækifæri í nýtingu lágvarma og hliðarstrauma orkuframleiðslu með jarðvarma, eins og ég hef komið inn á hér áður. Vegna breytinga á loftslagi eru breyttar aðstæður fram undan og er spáð þörf fyrir 50–70% aukningu á matvælaframleiðslu á næstu 30 árum. Það hefur því sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að horfa til aukinnar nýsköpunar í matvælaframleiðslu. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir matvælaöryggi á Íslandi að tryggja sem fjölbreyttasta matvælaframleiðslu hér á landi og ættum við því að auka verulega framlög til rannsókna og nýsköpunar á framleiðslu landbúnaðarafurða hér á landi og til aukinnar framleiðslu. Það er nefnilega mikil gróska í landbúnaði á Íslandi og við höfum dæmi um nýsköpun í framleiðslu, til að mynda fyrir austan. Þar má nefna bulsur og bopp frá Karlsstöðum í Berufirði, bygg og korn og aðra framleiðslu frá Móður Jörð í Vallanesi í Fljótsdalshéraði. Víðar eru fleiri dæmi. Stjórnvöld þurfa hins vegar að auka stuðning við nýsköpun og framleiðslu og gera frumkvöðlum eins og þeim sem ég nefndi kleift að þróa áfram sínar hugmyndir þannig að úr verði fjölbreyttari afurðir og aukin verðmætasköpun innan greinarinnar. Í því samhengi má nefna að sérstaklega skortir á stuðning við nýsköpun fyrir austan þar sem engin starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar er á Austfjörðum.

Frú forseti. Við gætum verið að gera svo miklu betur. Við höfum lengi beðið eftir matvælastefnu fyrir Ísland og vonandi sjáum við hana fljótlega eins og hæstv. ráðherra boðar. Vonandi mun þörfin fyrir aukna nýsköpun og fjölbreyttari landbúnaðarafurðir endurspeglast í þeirri stefnu þegar hún loksins kemur fram.