150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

flóðavarnir á landi.

58. mál
[13:40]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um flóðavarnir á Íslandi sem flutningsmaður, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, var að flytja. Það er nú væntanlega ekki til maður, alla vega ekki á þessum vinnustað, sem hefur meiri þekkingu á þessum málum en flutningsmaðurinn. Maður hefur oft farið í kistu hans til að fá upplýsingar um slík mál og reynist það nú yfirleitt auðsótt. Hér er talað um náttúruvá í þessari tillögu og að mjög mörgum verkefnum sé ólokið og hér er fram kominn listi með yfir 70 verkefnum. Á þessum degi eru um 47 ár liðin frá Vestmannaeyjagosinu og ég mun aldrei gleyma því kvöldi þannig að það stendur manni auðvitað alltaf nálægt þegar verið er að tala um þessa hluti. Þess vegna langar mig að spyrja: Er búið að forgangsraða þessum lista? Við minnumst hérna á Vík í Mýrdal, þar er varnargarður sem hefur enga vörn, það þyrfti að laga og við höfum verið að tala nokkuð lengi um að þyrfti að laga. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann geti upplýst okkur um það. Þetta er að stórum hluta almannavarnamál. Hvað líður því eða er til einhver óskalisti um framkvæmdaröð?