150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

flóðavarnir á landi.

58. mál
[13:42]
Horfa

Flm. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir hans vangaveltur og fyrirspurn. Það er þannig að þessar 70 millj. kr. sem eru u.þ.b. til reiðu ár hvert eiga jú bæði að dekka framkvæmdir sem eru á vegum einkaaðila, sem eru yfirleitt frekar smáar í sniðum, og svo framkvæmdir við stóru árnar og jökulhlaupsfarvegina. Bara viðhald þeirra garða sem nú eru þar er stór þáttur. Ég verð víst að játa að það hefur ekki verið hægt að forgangsraða. Það eru ákveðin verkefni sem hafa eiginlega komið upp og verður að sinna. Það fékkst sérstök fjárúthlutun vegna vatnavaxta í Hornafirði 2017 og unnið hefur verið að sérstökum flóðavörnum við Kúðafljót og Jökulsá á Fjöllum, einfaldlega vegna í öðru tilviki Holuhraunsgossins eða umbrotanna í Bárðarbungu og svo hins vegar vegna ágangs Kúðafljóts á þjóðvegi 1 en að öðru leyti þá er ekki búið að forgangsraða framkvæmdum. Þessi þingsályktunartillaga er einmitt sett fram til þess að athuga bæði með auknar fjárveitingar í þennan málaflokk og eins að framkvæma þessa forgangsröð í samvinnu við Landgræðsluna.