150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

niðurgreiðsla flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.

512. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. ÍVN (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu frá okkur í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort gera megi samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um niðurgreiðslu flugferða ungmenna milli landanna þriggja.“

Ég ætla að lesa greinargerðina af því að hún er mjög stutt, með leyfi forseta:

„Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk. Greinargerð þessi er byggð á greinargerð ályktunarinnar.

Þrátt fyrir að Ísland, Færeyjar og Grænland hafi eitt sinn tilheyrt sama konungsríki hefur aðeins lítill hluti ungmenna í löndunum þremur tækifæri til að ferðast til þessara nágrannalanda sinna og kynna sér menningu þeirra. Til þess að tryggja áframhaldandi gott samstarf milli landanna um sameiginlega hagsmuni er nauðsynlegt að gera vestnorrænum ungmennum kleift að kynnast nágrannalöndum sínum, menningu þeirra og íbúum.

Flugfargjöld milli vestnorrænna landa og innan þeirra eru mjög há. Vestnorræn ungmennafargjöld, eða lækkað verð á flugmiðum fyrir ungt fólk, myndi gera ungmennum landanna mögulegt að ferðast milli landanna þriggja í auknum mæli. Hægt væri að byggja á fyrirmynd evrópsku Interrail-lestarmiðanna þannig að lækkun fargjalds gilti í ákveðinn tíma. Því er lagt til að ríkisstjórnirnar skoði hvort unnt yrði að bæta flugfélögum landanna mögulegt tap sem hlytist af því að koma á vestnorrænum ungmennafargjöldum.

Að öðrum kosti gætu vestnorræn ríki komið á fót sjóði sem veitti ungmennum landanna styrki til að ferðast til annarra vestnorrænna landa. Eins og staðan er nú hafa ungmenni á Vestur-Norðurlöndum tækifæri til að sækja um styrki til ferðalaga á vegum íþróttafélaga, skóla eða menningarhópa. Í því samhengi er vert að nefna Grænlandssjóð og NATA (North Atlantic Tourism Association). Hins vegar geta ungmenni sem ferðast á eigin vegum milli landanna þriggja ekki sótt um styrki til þess.

Ályktun þessi er lögð fram í þeim tilgangi að styðja við ferðalög ungmenna milli landanna þriggja í þágu vestnorræns samstarfs til framtíðar.“

Eins og ég sagði áðan var þessi tillaga samþykkt á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Nuuk. Hún fékk kannski ekki jafn mikla umræðu og sú tillaga sem ég mælti fyrir áðan en engu að síður er ljóst að það er yfirlýst markmið Vestnorræna ráðsins að ýta undir frekara samstarf milli þessara vestnorrænu landa og þá er það að hvetja ungt fólk til að ferðast um þessi lönd og kynnast menningu hvert annars vel til þess fallið að ýta undir frekara samstarf á sviði viðskipta, menningar og lista í framtíðinni.

Mig langar að bæta því við þetta að auðvitað eru töluverð tækifæri í því fólgin að vinna betur og nánar með Færeyingum og Grænlendingum. Mörg fyrirtæki hafa til að mynda horft sérstaklega til Grænlands og eru að byggja þar upp aðstöðu. Grænlendingar hafa verið jákvæðir í garð Íslendinga þegar kemur að samstarfi á sviði viðskipta, því miður er ekki sérstakur fríverslunarsamningi í gangi milli þessara tveggja landa en vonandi verður það reyndin bráðlega. Aftur á móti höfum við líka verið í töluverðum viðskiptum við Færeyinga og þar hefur verið fríverslunarsamningur í gangi og er enn.

Það er kannski smááherslumunur milli aðila sem samþykktu þessa ágætu ályktun. Mér hugnast til að mynda mjög vel að ýta undir flugferðir ungmenna en velti fyrir mér hvort félögin á þessum markaði geti séð sér einhvern hag í því að vinna nánar saman með þetta að markmiði og hvort það þurfi endilega að koma til ríkisstyrkja. Ég veit það ekki. En það er ástæða til að geta þess — ég held að ég fari örugglega rétt með — að færeyska flugfélagið er í eigu ríkisins og grænlenska flugfélagið líka. Það er kannski ástæðan fyrir því að þessar þessi lönd horfðu strax til þess sjónarmiðs.

Öllum í Vestnorræna ráðinu bar saman um að mikil tækifæri væru í því fólgin að hvetja til frekari samskipti á milli landanna og að það að koma upp einhverju svona gæti verið vel til þess fallið að ýta undir það. Ég hygg að það sé jafnvel algengara að íslensk ungmenni hafi farið til Asíu en að þau hafi heimsótt okkar næstu nágranna á Grænlandi og í Færeyjum og kannski er vert að hugsa svolítið hvort ekki sé ástæða til að ýta undir það að við þekkjum vel til nágranna okkar á Vestur-Norðurlöndum.