151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur skýrt fram í bókun okkar að við munum nálgast þessa vinnu málefnalega. Að sjálfsögðu munum við greiða fyrir þeim hlutum sem ganga ekki beinlínis í berhögg við tillögur stjórnlagaráðs eða anda þeirra tillagna, þær þurfa ekki að vera óbreyttar, sem samþykktar voru af tveimur þriðju kjósenda. Það eru þá fyrst og fremst kannski umhverfisákvæðið og íslensk tunga. Það er nú kannski nokkuð augljóst. Í forsetakaflanum er margt gott. Við hefðum viljað fara aðra leið að því og gera meiri breytingar en við skulum sjá til samt.

Já, ég held að ekkert sé að því að hafa í svona ákvæði orð eins og „eðlilegt“ sem einhverjum kann að þykja loðin. Það eru þá bara skýr skilaboð og þarf að styðja mjög vel í greinargerð, eins og er reyndar gert í tillögunni 2013 þar sem farið er mjög vel yfir hvað felst í eðlilegu gjaldi. Það að nefna það, ásamt því auðvitað að koma því að í greinargerð, eins og frumvarp hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir, skýrir það í hvaða tilfellum maður ætlast til að fá hæsta verðið. Það hlýtur að vera grundvallaratriði þegar við ætlum að reka samfélag með fyrsta flokks velferðar- og heilbrigðisþjónustu, og sjá til þess að allir sem hér fæðast geti lifað innihaldsríku og góðu og öruggu lífi, að við fáum sem best verð fyrir afnot af mjög takmörkuðum auðlindum en gefum ekki meiri hlutann af arðinum fyrir þær, hvaða auðlindir sem það nú eru, í hendurnar á örfáum aðilum sem hafa rakað peningum saman á síðustu árum og áratugum. Ég hefði nú haldið að þingmenn Vinstri grænna styddu þau sjónarmið.