151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það hefur alltaf verið skýrt af hálfu Vinstri grænna að við viljum hámarka eignir þjóðarinnar og auðlindir. En við höfum ekki viljað og höfum ekki talað fyrir markaðslausnum eins og mér finnst hv. þingmaður gera, yfir alla línuna í rauninni. Það er dálítið þannig. Ég hef alla vega skilið þann málflutning með þeim hætti að þar sé línan lögð og að þannig og einungis þannig getum við nálgast það sem við vorum að ræða um áðan; eðlilegt gjald eða sanngjarnt. Við vitum alveg að mjög skiptar skoðanir eru á Alþingi um hvað sé sanngjarnt og eðlilegt og ekki síst þegar kemur að peningum. En ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um margt þegar kemur að því.

Í tillögunni sem hv. þingmenn flytja nokkrir saman eru auðlindirnar taldar upp. Mér finnst það vera tæmandi talning en ekki er gert ráð fyrir nýjum auðlindum. Ég hef kannski mislesið eitthvað. Ég velti fyrir mér hvernig við eigum þá að fara með það þegar við tölum um gjaldtöku í framhaldinu. Ekki förum við að taka upp stjórnarskrá eingöngu til þess að gera það. Þetta hefur mér kannski fundist vera gegnumgangandi, fyrir utan að vera búin að eyða allt of miklum tíma, mörgum árum, í að ræða um ferli en ekki innihald. Þannig að ég fagna því mjög að við séum að ræða innihald þessa máls, sem er stjórnarskráin og það sem hér er undir. Ég trúi ekki öðru en að á endanum verðum við öll sammála um að það eigi og verði til bóta að koma þessum ákvæðum inn í stjórnarskrá. Þess vegna bind ég vonir við vinnuna fram undan.