151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski tvennt sem ég vil nefna í framhaldi af ræðu hv. þm. Loga Einarssonar. Annars vegar er auðvitað það að hann hefur ásamt félögum sínum í Samfylkingunni og fleiri flokkum lagt mjög mikla áherslu á tillögur stjórnlagaráðs og framgang þeirra í þeirri mynd sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skildi við þær í mars 2013. Ég held að ég verði bara að spyrja hv. þm. Loga Einarsson beint: Hefur Samfylkingin einhvern tímann verið til viðtals um einhverjar breytingar á stjórnarskránni á öðrum grundvelli en þeim sem þar kom fram?