151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að fagna því að hæstv. ráðherra sé góðfúslega til í að spyrja þjóðina að nokkrum sköpuðum hlut vegna þess að ég tek eftir því hvað það er valkvæmt hvenær á að hlusta á þjóðina eða kjósendur þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum. Breytingarákvæðið, en hæstv. ráðherra orðaði það sem svo að verið væri að fara í kringum gildandi breytingarákvæði stjórnarskrár, er til þess að auka lýðræðið, til þess að hafa aðkomu kjósenda að breytingum á stjórnarskrá í stað þess að einungis fulltrúar geri það. Það er lýðræðisaukning. Ekki er verið að fara í kringum neitt, það er verið að lýðræðisbæta. Hins vegar er ákvæðið sem hæstv. ráðherra sagði hér ranglega að hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu upprunnið úr stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands sem konungur afhenti okkur góðfúslega. Það er því ekki mikill lýðræðislegur vilji á bak við það tiltekna ákvæði. Það er nánar tiltekið 61. gr. eins og kemur fram í breytingartillögum (Gripið fram í.) þar á eftir. En ég fagna því alla vega að hæstv. ráðherra sé góðfúslega reiðubúinn til að heimila þjóðinni að hafa einhverjar skoðanir á því hvernig hlutirnir eru. En ég bara óska þess að það gangi lengra.