151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef átt aðild að ríkisstjórnum sem hafa haft það beinlínis í stjórnarsáttmála að opna á þennan möguleika, að fyrir nýtingarréttindi komi gjald sem mögulega sé mótað af markaði. En það þarf auðvitað að fullgera slíkar hugmyndir og smíða þær þannig að við náum tilgangi okkar. Það sem upp úr stendur alltaf er að ekkert af því sem við gerum í stjórnarskránni kemur í veg fyrir að löggjafinn geti tekið af skarið um hvert gjaldið skuli vera á hverjum tíma. Við þurfum að vanda okkur þegar við notum hugtök eins og fullt gjald, markaðsgjald, eðlilegt gjald eða hvað það kann að heita vegna þess að með slíku orðalagi bindur stjórnarskráin hendur löggjafans upp að því marki sem stjórnarskrárgjafaviljinn stendur til. Við þurfum að vera alveg skýr um hvað átt er við. Hér var komið aðeins inn á að þetta ætti einungis við þegar verið væri að stunda slíka nýtingu í ábataskyni. Það er vegna þess að stundum er ómögulegt að hafa mikinn ávinning nema eftir jafnvel langan tíma.