151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að stríða hæstv. fjármálaráðherra í seinna andsvari varðandi 79. gr. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir þarf náttúrlega að breyta stjórnarskránni eins og 79. gr. gerir ráð fyrir. Samt er líka hægt að breyta henni með þingmannafrumvarpi og það var gert 2013 á þann veg að hægt væri að breyta henni á einhvern annan hátt. Hæstv. fjármálaráðherra, þá hæstv. forsætisráðherra, samþykkti þá breytingu að í ákveðinn tíma væri hægt að breyta stjórnarskránni með öðrum hætti. Ef Alþingi samþykkti frumvarp eða lagabreytingu með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða og 40% kjósenda að lágmarki samþykktu það þá væri hægt að breyta stjórnarskránni. Það er því hægt að brydda upp á breytingarákvæði um stjórnarskrá. Það hefur verið gert og hefur verið samþykkt, m.a. af hæstv. fjármálaráðherra. Kannski vill hæstv. ráðherra koma eitthvað inn á þetta.

Varðandi vilja þjóðarinnar: Það sem er í frumvarpi stjórnlagaráðs er bara það sem kom fram á þjóðfundinum og í gegnum ítarleg ferli. Fólk vill annars vegar aðkomu að því að geta lagt fram lagafrumvarp á Alþingi sem stjórnmálamenn eru að vanrækja og hins vegar aðkomu að því að séu stjórnmálamenn að gera eitthvað sem er klárlega í andstöðu við þjóðarviljann geti þjóðin sjálf kallað eftir að fá málið til sín, (Forseti hringir.) — hægt er að fara til Bessastaðabóndans og betla þar um að fá málið, sem er mismunandi hvort hann leyfir eða ekki — að með vilja 10% þjóðarinnar geti hún kallað sjálf eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Er óeðlilegt (Forseti hringir.) að þá verði þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem meiri hluti þjóðarinnar getur stöðvað (Forseti hringir.) það sem meiri hluti á Alþingi hefur gert? Er það óeðlilegt?