152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ekkert um okkur án okkar — það eru kjörorð félaga í Öryrkjabandalagi Íslands. Og ég vona að það sé hið besta mál að þetta mál sé farið af dagskrá. Ég vona heitt og innilega að heilbrigðisráðherra ætli nú í samtal við þá sem málið varðar og ætlunin sé að læra af reynslunni, að tala við fólk og hafa það með í ráðum en ekki að reyna að troða einhverju ofan í kok á því, eins og gert var með starfsgetumat öryrkja og ýmis önnur mál. Samtal er best af öllu, að tala saman, komast að samkomulagi og sérstaklega um það fólk sem þetta varðar. Þarna erum við að tala um viðkvæma hópa sem eiga fullan rétt á að ræða sín mál og taka þátt í að ganga frá frumvarpi þannig að farið sé að lögum og réttindi þessa fólks séu virt.