152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Loftslagsmarkmið Íslands þurfa að móta í ríkari mæli ákvarðanir um orkuframleiðslu og orkuflutning hér á landi en hvort tveggja er grundvöllur fyrir orkuskipti í samfélaginu og frekari vöxt atvinnuvega. Orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu, öfluga flutningsgetu og öflugt dreifikerfi. Þetta er niðurstaða skýrslu starfshóps sem hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun ársins til að fara yfir stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í skýrslunni eru m.a. sex sviðsmyndir settar fram og þær spanna allt frá lítilli og engri viðbót í raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar á henni eða 124% aukningar fram til ársins 2040.

Hæstv. forseti. Nágrannalönd okkar líta öfundaraugum til okkar Íslendinga þegar kemur að orkumálum. Okkur ber að horfa á allan heiminn þegar loftslagsmálin eru annars vegar. Við erum hér á jarðríki og búum öll undir sömu sólinni hvar sem við eigum heima. Hér hefur komið fram að 80% af raforkuframleiðslu á Íslandi fari til stórnotenda og jafnvel talað um að fækka stóriðju eins og álverum. Hvar eiga þá álver að vera? Það er ákall eftir áli. Á þá að reisa álver í Kína með kolaframleiðslu? Er það betra fyrir loftslagið? Ég held ekki. Ég held að við ættum að horfa til þeirrar orku sem er vanvirkjuð hér á Íslandi. Það er mikil vatnsorka vanvirkjuð og vindmyllur gætu fyllt upp í.

Mig langar í lokin á ræðu minni (Forseti hringir.) að benda hæstv. ráðherra á mál sem var samþykkt hér á vordögum 2019 um skilgreiningu auðlinda, (Forseti hringir.) sem fyrrverandi ráðherra vildi ekkert gera með, og ég bið hæstv. ráðherra um að skoða þessa þingsályktun, (Forseti hringir.) hún er mjög góð til að hjálpa til í þessari vinnu.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma sem er takmarkaður.)