154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[12:22]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er kannski smá spurning um víðsýni. Það þýðir ekki bara að hugsa alltaf í núinu. Það er náttúrlega verið að stefna að því að framleiða sjálfbært flugvélaeldsneyti og er gríðarleg vinna í því. Ég benti fyrr í umræðunni á það að fyrir um þremur, fjórum vikum kannski þá flaug Virgin Atlantic frá London til Bandaríkjanna á sjálfbæru flugvélaeldsneyti í fyrsta skipti yfir Atlantshafið, þetta var tilraunaflug, bara flugmenn um borð og kannski einhverjir áhafnarmeðlimir en ekki farþegar, þannig að menn eru byrjaðir að prófa þetta. Það eru þrjú ár í það sem við erum að tala um og ég ræddi einmitt hér áðan í andsvörum að ég hefði ekki trú á því að við yrðum komin með það magn sem við þyrftum 1. janúar 2027. En ég vil gjarnan að hlutum verði þannig komið fyrir á Íslandi að við verðum framtíðarframleiðslustaður fyrir flugvélaeldsneyti. Það snýr náttúrlega að því að hér erum við með gríðarlega mikilvægan flugrekstur, hvergi efnahagslega mikilvægari í hinum vestrænu löndum heldur en á Íslandi, gríðarlega stór og mikill þáttur í okkar atvinnulífi og landsframleiðslu, gjaldeyristekjum og hvernig sem við lítum á það.

En aðalspurningin, og það var kannski það sem ég saknaði svolítið í svarinu til að geta tekið það fyrir aftur og fá „feedback“ fyrir annað andsvar, (Gripið fram í.) var um hvað gerist um áramótin ef við myndum ekki samþykkja þennan þátt hér. (SDG: Við verðum Kúba norðursins.) Nei, ég er ekki þar. Hvaða áhrif hefði það að mati þingmannsins? Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn Miðflokksins hafi svar við því, hvað það myndi þýða. Það þýðir ekki alltaf að gagnrýna, það þarf líka að ræða hver veruleiki hlutanna er og hvað gerist í framhaldinu.