154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[12:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hér í annarri ræðu minni um þetta hneyksli sem er þessi tilraun ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér á Alþingi til að keyra í gegnum þingið 14 ákvarðanir Evrópusambandsins, ætla ég að halda mig við flugmálið, þ.e. nýju flugskattana, refsigjöldin á almenning fyrir að ferðast og ræða áfram orsök og afleiðingar þess. En hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kallaði eftir skýrri tímalínu og það er sjálfsagt að verða við því svoleiðis að fyrstu mínúturnar, frú forseti, fara í að rekja tímalínu málsins, helstu þætti.

Vandinn byrjaði þegar ríkisstjórnin ákvað að elta Evrópusambandið í sínu regluverki hvað varðar umhverfis- og loftslagsmál, regluverk sem féll utan EES-samningsins. Þessi ríkisstjórn ákvað að elta og helst að reyna að toppa Evrópusambandið. Það hefur reyndar allt gengið út á það hjá þessari ríkisstjórn, ekki aðeins að innleiða allt að fullu í dellumakarí Evrópusambandsins í málaflokknum heldur reyna að toppa þetta. Þetta ræddi ég oft við hæstv. forsætisráðherra í byrjun síðasta kjörtímabils sem þá þóttist ekki kannast við að vera elta Evrópusambandið en það var líklega vegna þess að ríkisstjórnin var í því að reyna að ganga lengra. Svo höfum við séð ítrekað og aftur að ríkisstjórnin rökstyður ákvarðanir sínar í loftslagsmálum með því að það þurfi að fylgja Evrópusambandinu í málaflokknum. En jæja, þarna var hún búin að setja sig og landið í erfiða stöðu þegar Evrópusambandið tekur upp á því að vilja innleiða enn nýja skatta og gjöld, ný refsigjöld á almenning í Evrópu fyrir að vera til og fær víðtækar hugmyndir um það hvernig hægt sé að fá fólk til að haga sér öðruvísi, m.a. með áformum um, eins og komið hefur fram hér fyrr í umræðunni, að hálfneyða fólk til þess að hætta að ferðast með flugvélum. Vel að merkja, þetta er nú líklega það fólk sem ferðast einna mest af öllum í heiminum í flugvélum og þá yfirleitt einkaflugvélum, fólkið sem tekur þessar ákvarðanir. En það þykir ekki viðeigandi fyrir almenning að vera að fljúga þannig að lagt er á ráðin um það að pína almenning til þess að nota aðra samgöngumáta; hlaupahjól eða járnbrautarlestar eða eitthvað slíkt, almenningssamgöngur í Evrópu.

Svo er þessi krafa, ásamt mörgu öðru sem ég mun koma inn á hérna í seinni ræðu, gerð til Íslands líka. Ríkisstjórnin bregst við þeirri kröfu með því að benda á hið augljósa, að aðstæður á Íslandi séu allt aðrar en í Evrópu. Við getum ekki ferðast til annarra landa með góðu móti nema með flugi og við séum með gríðarlega mikilvægan flugrekstur og ferðaþjónustu, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur oft nefnt, sem er alveg rétt, í okkar hagkerfi og loks séum við tengimiðstöð hér í Atlantshafinu milli vesturálfu og Evrópu, raunar Asíu að einhverju leyti líka. Þessi áform Evrópusambandsins muni rústa þeirri stöðu og hækka mjög allan kostnað íslensks almennings sem gæti látið sér detta í hug að ferðast til útlanda, hafandi ekki aðgang að járnbrautarlest sem gengur til Evrópu.

Ráðherrar gengu svo langt, eins og hæstv. núverandi fjármálaráðherra, að segja þetta vera erfiðasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir í samskiptum við Evrópusambandið eða vegna EES-samningsins. Aðrir ráðherrar tóku undir þetta og hér komu hv. þingmenn stjórnarflokkanna, ekki hvað síst kannski hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, og lýstu gríðarlegum áhyggjum af því í hvað stefndi og það yrði ekki við það unað. En þrátt fyrir tiltölulega afdráttarlausar yfirlýsingar þá hafði maður smáhnút í maganum, þekkjandi þessa ríkisstjórn. Ég rakti það hér oftar en einu sinni í ræðum og í viðtölum og skrifum að það sem ég óttaðist mest væri að þetta væri bara einhver sýndarmennska eins og við sjáum svo oft frá þessari ríkisstjórn og svo myndu menn finna einhverjar tylliástæður til að geta sagst hafa náð árangri, t.d. — og ég nefndi þetta, frú forseti — að segjast hafa fengið einhvern frest.

Jæja, hvað kom svo á daginn? Þegar Evrópumannahátíðin mikla var haldin hér með ærnum tilkostnaði þá mátti ekki skemma þá gleði. Ég er enn að rekja tímalínuna, frú forseti, til að bregðast við beiðni hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Þegar þær hittast, Katrín Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, og Ursula von der Leyen á stuttum kaffifundi í ráðherrabústaðnum er svo boðað til blaðamannafundar til að tilkynna um stórkostlega niðurstöðu. Það væri búið að leysa málið. Hver var lausnin? Jú, hún átti að vera sú að Ísland fengi frest. Þetta var nú reyndar kallað undanþága, einhverjir fjölmiðlar a.m.k. misskildu málið og birtu fyrirsögn um að Ísland hefði fengið undanþágu. En það var ekki svo. Ísland hafði fengið þarna þriggja ára frest áður en hörmungarnar allar myndu ríða yfir. Það vildi nú svo til með þessi þrjú ár að það var einmitt aðlögunartíminn sem var hvort eð er gert ráð fyrir fyrir öll lönd sem undir þetta myndu heyra. En þarna var þessu lýst sem einhvers konar sigri í málinu, að fá þennan frest.

Og hvað gerist eftir það? Ja, það tekur við allur hryllingurinn sem hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar voru búnir að vara okkur við og flugrekendur og aðrir, nema, til að forðast að þurfa að svara því, því er bætt inn að hægt sé að endurmeta málið. Ef ekki verði búið að gera ásættanlegar ráðstafanir þegar fresturinn rennur út, ef Evrópusambandið verði ekki búið að gera það sem við teljum þurfa þá sé ákvæði um að við getum byrjað að ræða málið aftur. Enginn réttur hjá okkur, við bara ákveðum að við megum byrja að tala um málið þegar það er í rauninni orðið of seint að ræða það.

Ef ríkisstjórnin trúir því að Evrópusambandið muni, eftir að við erum búin að gefa eftir og samþykkja að fara inn í þetta apparat, ef ríkisstjórnin trúir því að ef við verðum ekki alveg sátt við það síðar þá muni Evrópusambandið bara gefa eftir og endurskoða þetta, þá eru hæstv. ráðherrar kjánar. Annaðhvort það eða þeir telja að allur almenningur séu kjánar. Það getur bara verið annað af þessu tvennu ef menn raunverulega halda að Evrópusambandið muni verða tilbúið til þess að endurskoða þetta allt saman í þágu landsins eftir að hafa ekki verið til í neitt slíkt á þessum 200 fundum eða hvað þeir voru nú margir þar sem reynt var að tala Evrópusambandið til. Seinna, þegar búið er að samþykkja þetta, þá muni það kannski koma til móts við okkur. Ef menn trúa því þá eru þeir kjánar eða svo ósvífnir að þeir vilja bara ýta málinu á undan sér og treysta því að allir aðrir séu kjánar og skilja ekki hvað sé í vændum.

Þetta er eitt skýrasta dæmið, þau eru reyndar mörg, um uppgjöf þessarar ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandinu. ríkisstjórn sem lifir í ótta og er á stöðugum flótta, alveg gegnumgangandi. Og sérstaklega þegar tilkynningarnar og tilskipanirnar berast frá Brussel þá er kjarkurinn ekki mikill hjá þessari ríkisstjórn. Óttinn ræður för og löngunin til þess einhvern veginn að láta málin hverfa, fresta þeim, ýta þeim á undan sér fyrir einhverja aðra ríkisstjórn til að fást við síðar. Við munum aldeilis sjá afleiðingarnar af því áður en langt um líður.

En, frú forseti, ég náði eingöngu að fara í gegnum tímalínuna eða nánast eingöngu og bið yður því að setja mig aftur á mælendaskrá.