132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Málið er auðvitað ekki einfalt. Þegar hæstv. ráðherra segir, bæði hér í ræðustóli og í fjölmiðlum, að málið gangi út á það að þeir sem rannsaka vatnsafl eigi að fá tryggingu fyrir því að þeir fái kostnaðinn endurgreiddan ef þeir fá ekki nýtingarleyfið, þá felur það í sér að sá sem fær á endanum nýtingarleyfið og hefur lagt út í kostnaðinn við rannsóknirnar hefur ákveðinn forgang og hann veit það. Sá sem fær virkjunarleyfið hlýtur að þurfa að vera búinn að vinna einhverjar rannsóknir eða, sem er líka mikilvægt, að kaupa þær af öðrum. Það er mjög mikilvægur þáttur þessa máls að rannsóknir geta núna, samkvæmt nýju raforkulögunum sem hæstv. iðnaðarráðherra dýrkar og prísar, farið að ganga kaupum og sölum. Það er mjög alvarlegur angi þessa máls sem við höfum ekki rætt til hlítar. Ég hlýt að mótmæla því sem hæstv. ráðherra segir, að ekki sé þörf á að hefja 2. umr. á nýjan leik. Sjálf er ég búin með mína fyrri ræðu og hún hefði hljómað á allt annan veg ef ég hefði þá haft þær upplýsingar sem ég hef núna.